Samsett hjólabretti

Margir hjólabrettaframleiðendur bjóða upp á svokölluð samsett hjólabretti (e. completes / complete skateboards). Það þýðir að allir íhlutir fylgja með í einum pakka og auk þess er búið að setja þá alla saman – brettið er tilbúið til notkunar þegar kaupandinn fær það í hendurnar og hann getur byrjað að renna sér strax.

Hvað þarf að hafa í huga?

Í fyrsta lagi skaltu EKKI EKKI EKKI kaupa hjólabretti í dótabúð. Ef þú gerir það þá ertu einmitt bara að kaupa dót sem á lítið skylt við alvöru hjólabretti. Þau renna oftast illa, dekkin eru léleg og platan sjálf er alls ekki gædd þeim eiginleikum sem brettaplata á að hafa. Þetta er hugsanlega réttlætanlegt ef verið er að kaupa bretti fyrir ungt barn til að sjá hvort það hafi einhvern áhuga á hjólabrettum yfir höfuð en UM LEIÐ og það kemur í ljós að áhuginn er fyrir hendi og að brettið verði notað eitthvað að ráði þá er nauðsynlegt að kaupa alvöru bretti. Munurinn á dótabretti og alvöru samsettu bretti (þó það sé í ódýrari kantinum) er mikill.

Þar fyrir utan er aðallega þrennt sem er gott að hafa í huga:

  • Gæði Ef þú treystir söluaðilanum þá ertu í fínum málum. Allar hjólabrettabúðir ættu að leggja sig fram um að vera með góð samsett bretti og því er skynsamlegast að kaupa bretti í þannig búð. Það getur verið ákveðið öryggi í því að kaupa þekkt vörumerki en það má líka hafa í huga að minna þekkt merki geta alveg verið með góð samsett bretti, þannig að ef þú treystir búðinni þá ættir þú að geta treyst því að brettið sé gott.
  • Stærð Það er ekki sama hvaða stærð er keypt. Fyrir börn getur þetta skipt máli upp á að þau ráði hreinlega við brettið, að það sé ekki of stórt, en fyrir unglinga og fullorðna þarf ekki að spá eins mikið í þessu en þó passa að brettið sé ekki of lítið. Best er að skoða leiðbeiningar okkar um brettastærðir undir síðunni brettaplötur.
  • Útlit Í grunninn skiptir þetta auðvitað ekki öllu máli. Samt er útlit hjólabretta svo samgróið hjólabrettamenningunni að stundum virðist þetta skipta öllu máli, þá aðallega myndirnar undir brettunum. Þannig að ef brettið er ekki hugsað sem gjöf þá er um að gera að leyfa þeim sem mun nota það að hafa eitthvað um útlitið að segja. Athugaðu að minna getur líka verið meira, sum bretti eru án mynda undir en þá hefur eigandinn tækifæri á að skreyta það sjálfur með límmiðum og öðru.

Að lokum er gott að vera meðvituð um það að samsett hjólabretti eru fyrst og fremst hugsuð fyrir byrjendur á hvaða aldri sem er. Þau henta þeim vel en eru samt nánast aldrei jafn góð og bretti sem eru sett saman frá grunni úr völdum gæðahlutum. Þannig að eftir því sem notandinn verður betri þá er líklegt að hann vilji velja og setja saman sín eigin bretti.

Að öðru leyti þarft þú sem kaupandi ekki að spá mikið meira í samsettum brettum. Framleiðendurnir eru búnir að hugsa fyrir flestum smáatriðum sem þarf eins og að dekkjastærðin og öxlastærðin henti brettinu og notandanum og svo framvegis.

Hvaða brettastærð hentar?

Í grunninn þá er engin algild regla sem segir til um það hvaða brettastærð á að nota. Eins og með svo margt annað varðandi hjólabretti þá er þetta einfaldlega smekksatriði og þeir sem hafa verið á bretti í smá tíma finna oftast út úr því hvaða brettastærð þeir vilja.

Það er þó þannig að því minna sem brettið er miðað við notandann því auðveldara á hann með að ráða við og stjórna brettinu. Tæknilegir skeitarar vilja til dæmis hafa brettið í minni kantinum. Þeir sem renna sér meira, eru á pöllum og skálum og þess háttar vilja hafa brettið í stærri kantinum fyrir meiri stöðugleika.

Fyrir byrjanda er alltaf betra að velja frekar bretti í minni kantinum svo hann ráði betur við það á meðan hann er að læra. Svo má alltaf skipta í stærra bretti seinna meir.

Það er svo tvennt annað sem spilar inn í, það er líkamsstærð miðað við aldur og skóstærð. Ef notandinn er stór eða lítill miðað við sinn aldurshóp þá getur verið sniðugt að taka aðeins stærra eða minna bretti.

Neðangreindar leiðbeiningar eru aðeins til grófrar viðmiðunar og byggt á okkar reynslu og skoðunum. Leiðbeiningarnar eiga aðallega við um byrjendur.

Ef þú ert ekki viss hvað er best að velja, eða ef stærðin sem þú vilt er búin hjá okkur, þá ekki hika við að hafa samband með pósti á regular@regular.is eða með skilaboðum á Facebook eða Instagram.

Miðað við skóstærð upp að 29

Fræðilega séð væri best að reyna að velja hérna mjög lítil bretti eða á bilinu 6,5″ – 7,0″ breið fyrir þessa litlu skeitera.

Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að fá svona lítil bretti, oftast er 7,25″ það minnsta sem er í boði og jafnvel bara 7,5″. Þá er bara um að gera að taka það minnsta sem til er.

Miðað við skóstærð 30 – 34

Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,25″ – 7,75″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.

Miðað við skóstærð 35 – 39

Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,5″ – 8,00″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.

Miðað við skóstærð 40 og yfir

Hér er þetta svolítið opið og í raun hægt að velja öll bretti sem eru 7,5″ og breiðari.

Oftast eru það þó stærðirnar 7,75″ eða 8,0″ sem henta best og jafnvel 8,25″ fyrir þá stærri.

Fyrir fullorðna er oftast best að byrja á stærðinni 8,0″ en fyrir hávaxna getur verið gott að byrja á 8,25″ og jafnvel 8,5″.

Samsett bretti í brettasjoppunni