Hjólabrettadekk

Þegar hjólabrettið var fundið upp um miðja síðustu öld þá voru það snillingar sem festu bara stáldekk undir spýtubút og byrjuðu svo að renna sér eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Það er hins vegar ekkert sérstaklega gott (eða öruggt!) að renna sér um götur og gangstéttir á stálhjólum. Ekkert grip og brjáluð læti. Þrátt fyrir það urðu hjólabretti nokkuð vinsæl og eins og með allt sem verður vinsælt þá fór fólk strax að hugsa um leiðir til að breyta og bæta svo það yrði auðveldara, öruggara og ennþá skemmtilegra að renna sér.

Fljótlega komu þess vegna allskonar ný dekk fram á sjónarsviðið. Fólk prufaði sig áfram með dekk úr ýmsum öðrum málmum en svo taldi fólk sig hafa dottið niður á réttu lausnina sem voru dekk búin til úr hörðum leir. Þau reyndust hinsvegar lítið betra en málmdekkin, ennþá grjóthörð og með lítið grip, og eftir þetta varð lítil framþróun í hjólabrettadekkjum í nokkurn tíma.

Það var síðan upp úr 1970 sem allt breyttist þegar gaur að nafni Frank Nasworthy fann upp hjólabrettadekk búin til úr plasti. Voru þau búin til úr efni sem heitir á ensku „plastic polyurethane“ en er í daglegu tali kallað „urethane“.

Þetta breytti öllu og leiddi til þess að hjólabrettaiðkun sprakk út og varð vinsæl út um allan heim. Samhliða því stækkaði auðvitað hjólabrettaiðnaðurinn sjálfur og byrjað var að framleiða allskonar tegundir dekkja fyrir mismunandi tegundir bretta.

Tegundir dekkja

Í dag eru nánast öll hjólabrettadekk ennþá búin til úr þessu sama efni, urethane, enda hefur ekkert annað efni komið fram sem hentar betur. Það þýðir þó ekki að öll dekk séu eins því mismunandi framleiðendur hafa í gegnum tíðina prófað sig áfram með mismunandi urethane blöndur. Þess vegna er hver og einn framleiðandi með sína eigin blöndu af urethane sem hann notar í sín dekk og allir segjast þeir auðvitað vera með bestu blönduna!

Fyrir utan efnisnotkun í dekkin þá eru dekk líka mjög ólík að stærð og lögun eftir því hvað á að nota þau í. Fyrir utan allskonar mjög sérhæfð dekk þá má í grunninn skipta hjólabrettadekkjum í þrjá flokka.

  • Venjuleg hjólabrettadekk eru dekkin sem notuð eru við þessa hefðbundnu hjólabrettaiðkun sem við þekkjum þar sem er verið að renna sér styttri vegalengdir á gangstéttum, götum og hjólabrettagörðum og verið er að nota brettin í að gera allskonar trikk, grænd, slæd og svoleiðis.
  • Krúserdekk eru oftast bæði mýkri og aðeins stærri (hærri og breiðari) en venjuleg hjólabrettadekk. Þau eru notuð undir krúsera (e. cruiser) en það eru hjólabretti þar sem plöturnar eru breiðari en venjulegar plötur og oft aðeins öðruvísi í laginu. Þessi dekk renna lengur út af stærðinni og fara betur yfir allar ójöfnur, steina og svoleiðis út af mýktinni.
  • Langbrettadekk eru ennþá stærri, miklu breiðari og stundum ennþá mýkri en krúserdekk og eru notuð undir langbretti (e. longboard) sem eru sérstakar stórar hjólabrettaplötur. Þessi bretti eru oftast flöt og eingöngu til að renna sér þægilega lengri vegalengdir en henta alls ekki í trikk og þess háttar.

Dekkjastærðir

Hjólabrettadekk geta verið mjög misstór og er stærðin á þeim alltaf tilgreind í millimetrum (mm.) og er það þá alltaf hæðin á þeim sem er tilgreind. Dekk sem eru merkt sem 52 eru þannig 52 mm. há en breiddin er nánast aldrei gefin sérstaklega upp nema einhversstaðar í nánari vörulýsingu.

Nánast öll venjuleg hjólabrettadekk eru á milli 50 og 56 mm. á hæð. Dekk í minni kantinum eru búin að vera vinsælust síðustu ár og eru stærðirnar 50-54 mm. algengastar. Sennilega eru 52 mm. dekk þau allra algengustu og það er líka oftast sú stærð sem fylgir á samsettum brettum (e. complete skateboards) þó stundum séu þau minni eða stærri. Krúserdekk eru oftast 54-60 mm. á hæð og langbrettadekk geta verið ennþá stærri.

Stærð dekkja skiptir klárlega máli, sérstaklega fyrir vana hjólabrettaiðkendur sem vilja fínstilla brettin sín svo þau henti því sem þeir eru að gera og þeirra stíl.

Stærri dekk eru lengur að ná upp hraða en þau hafa hins vegar hærri hámarkshraða. Minni dekk eru fljótari að ná upp hraða en ná hins vegar ekki sama hámarkshraða og stærri dekk. Þess vegna eru minni dekk oft notuð af þeim sem eru að gera mikið af trikkum á götunni en stærri dekk af þeim sem eru meira á pöllum og hjólabrettagörðum og vilja ná upp meiri hraða.

En hæð dekkjanna er ekki eina stærðin sem skiptir máli, breiddin skiptir líka máli. Mjórri dekk hafa minna viðnám þegar þau rúlla eftir jörðinni og þess vegna eru þau oft notuð af götuskeiterum sem eru mjög tæknilegir og eru að slæda á köntum, bekkjum og svoleiðis þar sem dekkin nuddast mögulega við yfirborðið. Þau renna líka betur í power-slædum af sömu ástæðu og svo eru þau líka léttari sem gerir það auðveldara að gera allskonar flipp trikk. Breiðari dekk hafa meira viðnám þegar verið er að renna sér en gefa hins vegar meiri stöðugleika við lendingar eftir stökk og trikk.

Dekkjabit!

Þetta er það sem allir skeitarar óttast, helvítis dekkjabitið (e. wheelbite)! Dekkjabit er þegar dekkið nær að snerta botninn á brettaplötunni það mikið að dekkið stoppast algjörlega og brettið þar af leiðandi líka. Líkaminn á þér heldur hins vegar áfram að hreyfast og afleiðingin er oftast mjög ljótt fall enda gerist þetta oftast þegar þú ert að lenda trikki á ferð eða að taka krappa beygju.

Það þarf því að hafa stærð dekkjanna í huga í samhengi við hæð öxlanna sem eru notaðir og hversu stíft þú stillir öxlana (sjá nánar í kafla um öxla HÉR). Þetta má m.a. leysa með því að nota upphækkanir (e. risers) sem eru þunnar plötur úr plasti sem þú setur á milli brettaplötunnar og öxlanna svo fjarlægðin á milli dekkja og brettaplötu verður meiri og minnkar líkur á dekkjabiti.

Stífleiki

Stífleiki dekkja er mældur á svokölluðum Durometer kvarða sem er sérstakur kvarði sem mælir stífleika hluta. Hann skiptist í nokkra flokka (A, B, C, D o.s.frv.) og nær venjulega upp í gildið 100 fyrir hvern flokk.

Hjólabrettadekk eru oftast á bilinu 75-100 í A flokki á þessum kvarða, en til að flækja hlutina aðeins þá eru framleidd ennþá harðari dekk en það. Þess vegna hefur einfaldlega verið bætt við A flokkinn og það eru því til dekk sem eru sögð 101, 102, 103 og 104 A í stífleika. Öll dekk á hefðbundna skalanum fá því merkinguna 75A – 100A en extra hörðu dekkin fá merkinguna 101A – 104A (og jafnvel hærra ef svo ber undir).

Hinsvegar fannst sumum, eins og t.d. Bones dekkjaframleiðandanum, ómögulegt að gera þetta svona og í staðinn fyrir að fara yfir 100 í A flokknum þá færðu þeir sig yfir í B flokkinn með hörðustu dekkin sín og tákna þau með 81B, 82B, 83B og 84B og svo framvegis. Þessar tölur þýða þó nákvæmlega það sama og 100+ tölurnar í A flokknum:

101A = 81B
102A = 82B
103A = 83B
104A = 84B

Það er hægt að einfalda þetta og draga dekk saman í nokkra flokka. Innan hvers flokks þarf svo hver og einn að finna út hvað hentar honum:

78A-87A
Mjög mjúk til millimjúk dekk og hafa gott grip, geggjað fyrir krúser- og langbretti

88A-94A
Aðeins harðari og hraðari dekk en samt nógu mjúk til að fara yfir litla steina og misfellur

95A-101A/81B
Hörð dekk með meiri hraða, lang algengust og henta flestum í götuskeit og í hjólabrettagarða, palla og þess háttar.

102A-104A (82B-84B)
Lang hörðustu dekkin, eingöngu hentug fyrir reynda og tæknilega götu og park skatera

Byrjendur

Fyrir fullorðna og unglinga sem eru byrjendur er skynsamlegast að byrja á bilinu 95A-99A til að hafa ágæta blöndu af mýkt og gripi. Fyrir börn sem eru byrjendur getur verið ráðlegt að fara á enn mýkri dekk, eða einhversstaðar á bilinu 87A-94A. Hjólabrettaframleiðendur eru oft búnir að hugsa fyrir þessu þannig að á samsettum brettum er hentug stærð og stífleiki dekkja fyrir byrjendur og eru dekkin þá mýkri eftir því sem brettin eru minni (t.d. 7,5″ bretti og minni).

Hvað dekkjastærð varðar er best fyrir byrjendur að byrja á 51-53 mm. stórum dekkjum og þarf ekki að spá of mikið í hvort þau eru mjó eða í breiðari kantinum.