Þegar hjólabrettið var fundið upp um miðja síðustu öld þá voru það snillingar sem festu bara stáldekk undir spýtubút og byrjuðu svo að renna sér eins og ekkert væri sjálfsagðara.
Það er hins vegar ekkert sérstaklega gott (eða öruggt!) að renna sér um götur og gangstéttir á stálhjólum. Ekkert grip og brjáluð læti. Þrátt fyrir það urðu hjólabretti nokkuð vinsæl og eins og með allt sem verður vinsælt þá fór fólk strax að hugsa um leiðir til að breyta og bæta svo það yrði auðveldara, öruggara og ennþá skemmtilegra að renna sér.
Fljótlega komu þess vegna allskonar ný dekk fram á sjónarsviðið. Fólk prufaði sig áfram með dekk úr ýmsum öðrum málmum en svo taldi fólk sig hafa dottið niður á réttu lausnina sem voru dekk búin til úr hörðum leir. Þau reyndust hinsvegar lítið betra en málmdekkin, ennþá grjóthörð og með lítið grip, og eftir þetta varð lítil framþróun í hjólabrettadekkjum í nokkurn tíma.
Það var síðan upp úr 1970 sem allt breyttist þegar gaur að nafni Frank Nasworthy fann upp hjólabrettadekk búin til úr plasti. Voru þau búin til úr efni sem heitir á ensku „plastic polyurethane“ en er í daglegu tali kallað „urethane“.
Þetta breytti öllu og leiddi til þess að hjólabrettaiðkun sprakk út og varð vinsæl út um allan heim. Samhliða því stækkaði auðvitað hjólabrettaiðnaðurinn sjálfur og byrjað var að framleiða allskonar tegundir dekkja fyrir mismunandi tegundir bretta.