Hvaða hjólabrettastærð á að velja?
Í brettafræðslunni okkar um samsett bretti og brettaplötur förum við yfir allt sem snýr að brettum og hvaða hjólabrettastærð henta hvaða aldri. Við stiklum nú á því helsta hér fyrir neðan.
Í fyrsta lagi þá er val á brettastærðum engin nákvæm vísindi, á endanum er þetta alltaf spurning um það hvaða stærð hver og einn kýs að nota. Þannig geta til dæmis tveir fullorðnir einstaklingar sem eru jafn stórir og að gera sömu hlutina kosið að nota algjörlega mismunandi stærðir.
Hins vegar, þegar kemur að krökkum, unglingum og byrjendum þá eru ákveðnar þumalputtareglur sem er gott að hafa í huga við val á hjólabrettum og brettaplötum.
Hvaða stærðir skipta máli á hjólabrettum?

Stærðir á hjólabrettum eru langoftast mældar og gefnar upp í tommum (táknað með “ merkinu). Sú stærð sem er alltaf gefin upp í vöruheitum og vörulýsingum er breiddin og það er sú stærð sem á fyrst og fremst að ráða för við val á bretti.
Lengd og hjólhaf haldast í hendur með breiddinni þannig að því minni breidd þeim mun styttri er lengdin og hjólhafið.
Val á brettum fyrir byrjendur
Samsett bretti eru tilvalin til að byrja á. Þau eru ódýrari kostur en að kaupa alla hluti hjólabrettis í sitt hvoru lagi og setja saman. Samsett bretti frá góðum framleiðendum eru mjög góð og standa fyllilega undir því sem byrjendur þurfa á að halda. Við mælum með að kaupa bretti frá söluaðilum sem þú treystir og fyrir alla muni að reyna að forðast það að kaupa bretti í dótabúðum eða stórmörkuðum nema að vel athuguðu máli!
Fyrir byrjanda alltaf betra að velja frekar bretti í minni kantinum svo hann ráði betur við það á meðan hann er að læra. Svo má alltaf skipta í stærra bretti seinna meir.
Að lokum er svo tvennt annað sem spilar inn í, það er líkamsstærð miðað við aldur og skóstærð. Ef notandinn er stór eða lítill miðað við sinn aldurshóp þá getur verið sniðugt að taka aðeins stærra eða minna bretti.
Neðangreindar leiðbeiningar eru aðeins til grófrar viðmiðunar og byggt á okkar reynslu og skoðunum. Leiðbeiningarnar eiga aðallega við um byrjendur. Ef þú ert ekki viss hvað er best að velja, eða ef stærðin sem þú vilt er búin hjá okkur, þá ekki hika við að hafa samband með pósti á regular@regular.is eða með skilaboðum á Facebook eða Instagram.
0-5 ára
Miðað við skóstærð upp að 29
Fræðilega séð væri best að reyna að velja hérna mjög lítil bretti eða á bilinu 6,5″ – 7,0″ breið fyrir þessa litlu skeitera.
Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að fá svona lítil bretti, oftast er 7,25″ það minnsta sem er í boði og jafnvel bara 7,5″. Þá er bara um að gera að taka það minnsta sem til er.
5-8 ára
Miðað við skóstærð 30 – 34
Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,25″ – 7,75″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.
9-12 ára
Miðað við skóstærð 35 – 39
Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,5″ – 8,00″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.
13 ára +
Miðað við skóstærð 40 og yfir
Hér er þetta svolítið opið og í raun hægt að velja öll bretti sem eru 7,5″ og breiðari, bara eftir smekk.
Oftast eru það þó stærðirnar 7,75″ eða 8,0″ sem henta best og jafnvel 8,25″ fyrir þá stærri.
Fyrir fullorðna er oftast best að byrja á stærðinni 8,0″ en fyrir hávaxna getur verið gott að byrja á 8,25″ og jafnvel 8,5″.