Hjólabretti – góð báðum megin?
Formið sem við þekkjum á brettaplötum í dag þar sem plöturnar eru nánast eins að framan og aftan heitir á ensku „popsicle“ því þessi lögun dregur nafnið sitt af viðarstöngunum sem eru notaðar í íspinna. Áhugavert, en ef þú pælir í því þá eru hjólabretti einmitt þannig í laginu! 🙂
Þó „popsicle“ brettaplötur líti út fyrir að vera alveg eins í báða enda þá er það hins vegar ekki þannig, plöturnar hafa nefnilega mismunandi fram- og afturenda sem kallast á ensku „nose“ og „tail“. Þeir eru ekki jafn stórir og stundum aðeins mismunandi í laginu. Framendinn (nose-ið) er alltaf örlítið stærri en afturendinn (tail-ið) og er bæði lengri og hærri þó maður sjái það ekki endilega auðveldlega. Tilgangurinn með þessu er að framendinn „grípi“ betur í fótinn þegar verið er að framkvæma allskonar trikk og svoleiðis.
Þess vegna skiptir máli hvernig brettið snýr þegar þú notar það og ert að renna þér á því. Nose-ið á að snúa fram og tail-ið aftur.
Á endanum þegar búið er að nota brettið mikið þá aðlagast líka öxlarnir misjafnlega eftir því hvort þeir eru að framan eða aftan því maður notar framöxul brettisins meira til að beygja og stýra brettinu á meðan maður notar afturöxulinn fyrir stöðugleika. Þessa vegna er líka algengt að stilla afturöxlana þannig að þeir séu örlítið stífari en framöxlarnir.
En hvernig veit maður hvor endinn er fram og hvor er aftur?
Fyrir byrjendur er ekki auðvelt að sjá þetta, en það eru nokkrar leiðir til að átta sig á þessu:
- Nose-ið er aðeins lengri og hærra upp en tail-ið. Stundum er nose-ið líka örlítið öðruvísi í laginu.
- Myndin sem er undir brettinu er oftast þannig að efri hlutinn á henni snýr í áttina að nose-inu.
- Þegar brettið er nýtt og ekki kominn sandpappír á það þá er oft grafík ofan á brettaplötunni og hún er langoftast tail megin á plötunni.
Það eru líka margar leiðir til að merkja brettið sitt svo maður sjái alltaf hvernig það snýr þegar maður er að nota það:
- Setja mislitar skrúfur í framöxulinn sem eru öðruvísi en allar hinar skrúfurnar.
- Tússa eða mála á skrúfurnar eða sandpappírinn við framöxulinn.
- Rispa í sandpappírinn einhversstaðar á brettinu, oftast einhversstaðar við framöxulinn.
- Ef maður er að setja saman nýtt bretti sjálfur er hægt að setja sandpappírinn þannig á brettið að hann sé ekki allsstaðar eins, t.d. skipta honum í 2 hluta.
- Nota sandpappír sem er með áprentaðri mynd eða munstri sem er ekki eins báðum megin.
Gaman að vita!
Sumir snúa brettaplötunum sínum viljandi öfugt þegar þeir setja brettin sín saman því þeim finnst betra að hafa afturendann stærri.
Fleiri og fleiri eru farnir að nota svokölluð „symmetrical“ bretti en þá eru fram- og afturendarnir nákvæmlega eins í laginu. Þá þurfa þeir aldrei að spá í hvor endinn er hvað – en í slíkum tilfellum þarf þó að passa upp á að öxlarnir á brettinu séu eins stilltir (jafn stífir) en ekki hafa afturöxulinn stífan.