Það eru nokkur atriði sem gera það mögulegt að láta hjólabretti gera það sem þú vilt að það geri. Öxlar, dekk, legur og fleira skipta augljóslega máli í því að stýra brettinu og láta það renna en þegar kemur að því að gera ákveðna hluti eins og trikk þá er tvennt sem skiptir mestu máli – lögun brettisins og sandpappírinn.
Lögun brettisins sem lesa má nánar um hér skiptir miklu máli því hún gerir það auðveldara fyrir þig að nota fæturnar til að ýta, toga, snúa, flikka og flippa brettinu. Lögunin er samt ekki næg ein og sér því fæturnir og skórnir þurfa að hafa sem mest grip á plötunni.
Þar kemur sandpappírinn inn. Hann gefur grip sem þú notar til viðbótar við lögun plötunnar til að stjórna brettinu. Sandpappírinn grípur í skóna þína þegar þú stendur á því en líka þegar þú rennir fótunum til á brettinu til að framkvæma trikk. Kickflip er gott dæmi, þar sem þú rennir fætinum fram eftir brettinu og til hliðar til að láta brettið snúast í loftinu. Þar eru bæði sveigjan á brettaplötunni og sandpappírinn sem grípa í skóinn og láta flippið gerast.