fbpx

Sandpappír fyrir hjólabretti

Það eru nokkur atriði sem gera það mögulegt að láta hjólabretti gera það sem þú vilt að það geri. Öxlar, dekk, legur og fleira skipta augljóslega máli í því að stýra brettinu og láta það renna en þegar kemur að því að gera ákveðna hluti eins og trikk þá er tvennt sem skiptir mestu máli – lögun brettisins og sandpappírinn.

Lögun brettisins sem lesa má nánar um hér skiptir miklu máli því hún gerir það auðveldara fyrir þig að nota fæturnar til að ýta, toga, snúa, flikka og flippa brettinu. Lögunin er samt ekki næg ein og sér því fæturnir og skórnir þurfa að hafa sem mest grip á plötunni.

Þar kemur sandpappírinn inn. Hann gefur grip sem þú notar til viðbótar við lögun plötunnar til að stjórna brettinu. Sandpappírinn grípur í skóna þína þegar þú stendur á því en líka þegar þú rennir fótunum til á brettinu til að framkvæma trikk.  Kickflip er gott dæmi, þar sem þú rennir fætinum fram eftir brettinu og til hliðar til að láta brettið snúast í loftinu. Þar eru bæði sveigjan á brettaplötunni og sandpappírinn sem grípa í skóinn og láta flippið gerast.

Stærð

Ef þú ætlar að leggja sandpappírinn í einu lagi á plötuna þá þarftu að vera viss um að sandpappírsörkin passi á plötuna en bæði hjólabretti og sandpappírsarkir eru mæld í tommum. Plöturnar eru oftast á bilinu 7,5″ – 9,0″ breiðar og 30″ – 33″ langar (stærðir alltaf gefnar upp í tommum). Sandpappírsarkir eru langoftast 9″ breiðar og 33″ langar og passa þar af leiðandi á næstum öll bretti. Þess vegna þarf ekkert að hugsa of mikið um þetta nema þú sért með óvenjustórt bretti (t.d. krúserbretti) en þá er annað hvort hægt að fá stærri sandpappírsarkir eða nota fleiri en eina örk.

Verð og gæði

Eins og með allt annað þá geta verð og gæði haldist í hendur þegar kemur að sandpappír. Það er samt algjör óþarfi að kaupa of dýran sandpappír því á endanum eru flestar tegundir af sandpappír alveg nógu góðar. Keyptu af söluaðila sem þú treystir eða þekktu vörumerki og þá ertu í góðum málum.

Sandpappír með flottri grafík eða myndum á er oftast dýrari en venjulegur svartur sandpappír. En ef lúkkið skiptir máli þá er um að gera að breyta aðeins til!

Lím og loftgöt

Límið undir sandpappírnum skiptir miklu máli, enda það sem heldur pappírnum á brettinu. Þarna gildir samt eins og með annað að ef þú treystir vörumerkinu og gæðum pappírsins almennt þá á límið að vera í lagi.

Margir framleiðendur eru byrjaðir að bjóða upp á sandpappírsarkir með pínulitlum loftgötum. Þegar þú límir örkina á hjólbrettaplötuna þá geta nefnilega myndast loftbólur undir sandpappírnum (þó þú vandir þig) sem er leiðinlegt að eiga við og getur flýtt fyrir því að sandpappírinn flagni af. Því eru þessi loftgöt sett í arkirnar við framleiðslu sem gera það að verkum að þegar þú límir örkina á hjólabrettaplötuna þá sleppur loft út um götin, sem minnkar líkurnar á loftgötum. Oftast er þessi sandpappír samt aðeins dýrari en venjulegur.

RÁÐ: ef þú ert með venjulegan sandpappír og það koma loftbólur, stingdu þá á loftbólurnar með nál eða einhverju slíku til að losa loftið út.

Grófleiki

Þetta atriði skiptir ekki öllu máli en gott að vita af því. Sandpappír á hjólabretti er nefnilega hægt að fá með mismiklum grófleika alveg eins og venjulegan sandpappír sem er notaður til að pússa hluti. Því meiri grófleiki því meira grip átt þú að fá, sem er ekki endilega alltaf gott og er líka misjafnt eftir smekk hvers og eins.

Oftast gefa framleiðendur og seljendur ekki einu sinni upp grófleika sandpappírsins sem þeir selja á meðan sumir eru með margar útgáfur. Þú þarft ekki að spá í þetta of mikið fyrst um sinn. Með tímanum finnur þú svo hvort þú kjósir einhvern grófleika fram yfir annan en fyrir flesta skiptir þetta ekki miklu máli.

Láttu sköpunargleðina ráða!

Í flestum tilfellum setur fólk bara venjulegan svartan sandpappír í heilu lagi á brettaplötuna. Það er hins vegar ekkert sem segir að það sé eina rétta leiðin og um að gera að leyfa hugmyndafluginu og sköpunargleðinni að njóta sín. Það getur þjónað tvennum tilgangi:

  • Að gera brettið flottara og persónulegra.
  • Að auðvelda að átta sig á hvernig brettið snýr, því það er ekki alltaf auðvelt að sjá í fljótu bragði hvernig brettið snýr ef það er bara svart heilt yfir (hér er líka hægt að nota litaðar skrúfur öðru megin til að merkja fram eða afturenda).

Í dag er verið að framleiða allskonar sandpappír: litaðan, glæran, munstraðan eða með áprentuðum myndum. Það er því um að gera að skoða öðruvísi sandpappír.

Það eru endalausir möguleikar á að klippa sandpappírinn til og setja hann á í tvennu eða þrennu lagi eða meira, nota mismunandi pappírsarkir og svo framvegis. Það er t.d. mjög algengt að setja sandpappír á í tvennu lagi og hafa þá bil á milli til að það sjáist í merki eða myndir sem oft eru ofan á brettaplötunum (oftast rétt fyrir ofan götin fyrir afturöxulinn).

RÁÐ: Til að skera sandpappír er best að nota dúkahníf eða rakvélablöð.