Öxlarnir eru eiginlega miðpunktur hjólabrettisins, enda festast allir hinir hlutir brettisins við öxlana með einhverjum hætti. Það eru líka þeir sem gera það mögulegt að beygja og stýra brettinu og grænda!
Hjólabrettaöxlar
Það eru til nokkrar mismunandi tegundir og útfærslur af hjólabrettaöxlum en langflestir öxlar sem við notum eru settir saman á sama hátt og úr sömu hlutunum.
- Botnstykki (e. baseplate) er stóri hlutinn sem festist við brettaplötuna með litlum boltum og róm (e. hardware) í gegnum 4 göt. Á botnstykkinu er líka gat fyrir stóran bolta (e. kingpin) sem festist innan í botnstykkinu og stendur út úr því. Hinum megin á botnstykkinu er svo lítil hola eða skál sem hluti af hangernum (e. hanger) stingst ofan í.
- Stór bolti (e. kingpin) sem festist innan í botnstykkinu og stendur út úr því og allir litlu hlutirnir festast utan um. Það er þessi gaur sem heldur öllum hlutum öxulsins saman.
- Sveigðar skinnur (e. washers) til að halda fóðringunum betur.
- Fóðringar (e. bushings) úr plasti sem gera öxlinum kleyft að beygja. Hægt er að fá fóðringar með marga mismunandi stífleika eftir því hvað hentar hverjum og einum.
- Ró (e. nut) sem skrúfast á enda stóra boltans og heldur öllu saman. Hægt er að nota hana til að stilla stífleika öxulsins upp að vissu marki með því að herða eða leysa hana.
- Hangerinn (e. hanger) er hinn stóri hluti öxulsins. Hann festist bæði utan um stóra boltann en hluti af honum stingst líka í litlu skálina á botnstykkinu með lítilli plasthlíf á milli (e. pivot cup). Plasthlífin getur skemmst með tímanum og gæti þurft að skipta um hana. Í gegnum hangerinn og út úr honum kemur svo öxullinn (e. axle) sem dekkin og legurnar festast á. Á öxlinum fylgja svo tvær litlar skinnur (e. washers) sem á alltaf að nota og yst eru svo rær til að skrúfa dekkin föst.
Gott að vita
Næstum því allir hjólabrettaöxlar passa undir næstum því allar hjólabrettaplötur, þ.e.a.s. götin sem eru á brettaplötunum passa nákvæmlega við götin sem eru á botnstykki öxlanna. Það þarf því ekki að hafa áhyggjur af þessu þegar öxlar eða brettaplötur eru keyptar eða spá í mismun á milli framleiðanda.
Undantekning frá þessu eru sérstakar tegundir öxla (t.d. sem eru ætlaðir undir langbretti) eða gamlir öxlar eða brettaplötur því aðrar stærðir voru stundum notaðar hér áður fyrr.
Stærðin skiptir máli
Oftast er talað um þrjú mismunandi mál á öxlum. Eins og með flest annað sem snýr að hjólabrettum þá eru þau nánast alltaf gefin upp í tommum.
- Öxulstærð Heildarbreiddin á öxlinum sjálfum frá enda til enda. Þetta er það mál sem oftast er gefið upp hjá framleiðendum.
- Hangerstærð Lengdin á hangernum sjálfum. Er staðlað og fylgir oftast öxulstærðinni. Það þarf ekki að spá mikið í þetta en sumir framleiðendur gefa þessa stærð þó upp í staðinn fyrir öxulbreidd.
- Hæð Sú hæð sem öxullinn er frá brettaplötunni þegar búið er að festa hann á plötuna. Oftast talað um low, medium og high, en flestir öxlar eru medium (stundum kallað standard). Þetta er þó misjafnt eftir framleiðendum og því um að gera að kynna sér málið þegar öxlar eru keyptir. Hér skiptir smekkur hvers og eins máli en hafa þarf í huga að því stærri dekk því meiri þörf á að hafa öxulinn hærri (eða nota hækkunarpúða).
Það er auðvitað hægt að setja hvaða öxul sem er undir hvaða brettaplötu sem er. Það er hins vegar bæði skynsamlegt og æskilegt að stærð öxlanna sé í takt við stærð brettaplötunnar. Gott er að miða við eftirfarandi leiðbeiningar.
7,50“ öxlar fyrir 7,25 – 7,75“ plötur
7,75“ öxlar fyrir 7,50 – 8,00“ plötur
8,00“ öxlar fyrir 7,75 – 8,25“ plötur
8,25“ öxlar fyrir 8,00 – 8,50“ plötur
8,50“ öxlar fyrir 8,25 – 8,75“ plötur
8,75“ öxlar fyrir 8,50 – 9,00“ plötur
9,00“ öxlar fyrir 8,75“ plötur og stærri
Það er sem sagt allt í góðu að öxlar séu allt að því 0,25″ minni eða stærri en brettaplatan sem er notuð. Lang algengast er þó að nota sömu stærð af öxlum og plötum, til dæmis 8″ öxla undir 8″ plötur, en það er fínt að hafa þetta í huga (til dæmis ef maður þarf að skipta um plötu og langar að prufa aðra stærð en ætlar að nota gömlu öxlana áfram).
Það hefur ákveðna kosti og galla að nota öxla sem eru minni eða stærri en brettaplatan:
- Minni öxlar gera öll flipp trikk auðveldari, en minni stöðugleika við að lenda og renna á brettinu.
- Stærri öxlar gera flipp trikkin erfiðari, en gefa meiri stöðugleika við að lenda og renna á brettinu.
Til að flækja málið aðeins
Auðvitað geta ekki allir framleiðendur sammælst um að nota bara tommur sem mælikvarða á stærð öxlanna sinna. Sumir nota stærðina á hangernum, sumir nota millimetra og sumir nota bara einhverjar tölur.
Oftast er þó auðvelt að sjá eða komast að því hvað öxlarnir hjá mismunandi framleiðendum eru breiðir í tommum, þannig að ef þú ert ekki viss þá er bara að gúggla það.
Fóðringar
Fóðringar (e. bushings) geta verið mismunandi stífar/mjúkar og er stífleiki þeirra mældur á sama mælikvarða og hjólabrettadekk, þ.e. á svokölluðum Durometer skala (sjá nánar um hann á dekkjasíðunni okkar). Það má horfa á þetta nokkurn veginn svona:
- 78A eða í kringum það eru mjög mjúkar fóðringar
- 88A eða í kringum það eru mjúkar fóðringar
- 90A eða í kringum það eru nokkuð mjúkar fóðringar
- 92A eða í kringum það eru millistífar fóðringar
- 94A eða í kringum það eru stífar fóðringar
- 96A eða í kringum það eru mjög stífar fóðringar
Það eru margir sem skrúfa bara róna á öxlinum meira niður þegar þeir vilja gera öxlana sína stífari. Það er þó ekki skynsamlegt að gera það nema upp að vissu marki því annars skemmast fóðringarnar bara. Þá ætti frekar að skipta yfir í stífari fóðringar.
Fóðringar geta verið mismunandi í laginu en flestar falla þær í tvo flokka:
- Venjulegar (e. standard/conventional) eru með breiðum neðri hluta en keilulaga efri hluta.
- Keilulaga (e. conical) eru með báða hlutana keilulaga.
Það skiptir ekki öllu máli hvor tegundin er valin. Flestir notast við venjulegar fóðringar en sumir kjósa keilulaga. Það sem má kannski helst hafa í huga er að keilulaga fóðringar leyfa örlítið meiri beygju á öxlinum miðað við sama stífleika á venjulegum fóðringum.
Hækkunar- og höggpúðar
Hækkunarpúðar (e. riser pads) eru plastpúðar sem eru stundum settir á milli botnplötu öxulsins og brettaplötunnar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að búa til meira bil á milli brettaplötunnar og dekkjanna til að losna við dekkjabit (e. wheelbite) en púðarnir hjálpa þó einnig til við að draga úr álagi á brettaplötuna og auka endingu hennar (minni líkur á að hún brotni).
Auk hækkunarpúða eru til höggpúðar (e. shock pads). Þeir eru oftast mýkri (úr gúmmíi en ekki plasti) og mjög þunnir (oftast 1/16″). Tilgangur þeirra er bara að minnka álagið á milli brettaplötunnar og öxulsins en ekki til að hækka brettið.