Það eru allskonar fylgihlutir og dót í kringum hjólabretti sem er gott að eiga en ekki endilega nauðsynlegt. Það er allavega gott að vita af því helsta og til hvers það er.

Fylgihlutir og smádót

Skrúfur og rær (e. hardware)
Ok, þetta er reyndar það eina af listanum sem er nauðsynlegt því þú setur ekki saman bretti nema hafa skrúfur og rær!
Þetta er alltaf selt saman í pakka og pakkinn inniheldur alltaf a.m.k. 8 sett (4 fyrir hvorn öxul). Stundum fylgja 1-2 auka skrúfur sem eru öðruvísi á litinn og eru þær þá til að setja að framan/aftan til að hjálpa þér að þekkja framendann frá bakenda brettisins. Hægt er að fá allskonar liti af skrúfum þannig að um að gera að leika sér aðeins.
Skrúfulengdin er misjöfn og alltaf gefin upp í tommum. Fyrir venjulegt bretti passa 7/8″ vel (sjö áttundu úr tommu) en margir nota 1″ (ein heil tomma) til að vera vissir um að þær passi eða ef það eru hækkunarpúðar á brettinu. Ef það eru notaðir stærri hækkunarpúðar þá þarf mögulega að nota 1,25″ eða stærri skrúfur og er það t.d. oft nauðsynlegt á krúserbrettum.
Það eru tvær mismunandi tegundir af skrúfuhausum og er alltaf talað um Phillips eða Allen skrúfur. Phillips þýðir bara að það þarf stjörnuskrúfjárn á skrúfuna en Allen þýðir að það þarf að nota sexkant. Það skiptir engu hvort er notað, það veltur bara á hvað hverjum og einum finnst betra.

Skeitverkfæri (e. skate tool)
Skeitverkfæri er virkilega gott að eiga. Það er sérhannað fyrir hjólabretti og er með þremur mismunandi hausum sem er hægt að nota á allar rær á brettinu en að auki þá er inni í því lítið skrjúfjárn sem er bæði með Phillips og Allen hausum. Þetta er því eina verkfærið sem þarf til að setja saman og/eða stilla hjólabretti.
Stundum er sérstakt gat með skrúfgangi á verkfærinu. Það er til að nota á endana á öxlunum ef skrúfgangurinn á öxlunum er orðinn skemmdur, t.d. eftir notkun eða högg. Þá er þessi hluti verkfærisins notaður til að „búa til nýjan“ skrúfgang á öxlinum svo það sé hægt að skrúfa rærnar af og á.
Það skiptir nánast engu máli hvaða skeitverkfæri er keypt, þau gera öll sitt gagn. En nokkrar aukakrónur gefa samt verklegri grip og ekkert að því að splæsa í það.

Rennur (e. rails)
Rennur eru langir plastlistar sem eru skrúfaðir fastir undir hjólabrettið. Þær eru oftast seldar tvær saman í pakka, hægt er að fá allskonar liti og skrúfur fylgja oftast með. Tilgangurinn með rennum er tvíþættur:
1. að láta brettið renna/slæda betur
2. að vernda brettið (og grafíkina!) og lengja líftíma þess
Það er misjafnt hvar rennurnar eru settar á brettin, sumir setja alveg út við kantana (eins og á myndinni) en aðrir setja nálægt miðjunni. Best er þó að fara milliveginn og setja einhversstaðar þarna á milli þannig að þær fari ekki inn á flata partinn á miðju brettinu en samt nógu nálægt miðjunni til að brettið slædi á rennunum en ekki á brettinu sjálfu á milli rennanna.
Áður fyrr voru nánast öll bretti með rennum og var eiginlega skrítið að vera ekki með svoleiðis. Í dag telst það þó til undantekninga og jafnvel finnst mörgum það eitthvað asnalegt. Það er samt fáránlegt því rennur gera brettinu bara gott og því ættu skeitarar að nota þær miklu meira.

Hækkunarpúðar (e. riser pads)
Hækkunarpúðar eru plastpúðar sem eru settir á milli öxulsins og brettaplötunnar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að búa til meira bil á milli brettaplötunnar og öxulsins en púðarnir hjálpa þó einnig til við að draga úr álagi á brettaplötuna og auka endingu hennar (minnka líkur á að hún brotni).
Ástæðan fyrir því að búa til meira bil á milli plötunnar og öxulsins er oftast sú að minnka líkurnar á dekkjabiti (e. wheelbite). Dekkjabit er þegar hjólabrettið er að beygja og platan fer það langt niður að hún rekst niður í eitt dekkið. Við það hættir dekkið að rúlla og sá sem stendur á brettinu fleygist af því, oftast með harkalegu falli í kjölfarið.
Spurningin hvort það þurfi að nota púða eða ekki veltur á samspili þriggja hluta:
- Dekkjastærð Á venjulegum öxli er vel hægt að vera með 54-55 mm. dekk án þess að þurfa hækkunarpúða, en með stærri dekk er betra að vera með púða til öryggis.
- Hæð öxulsins Ef hæðin á öxlinum er lág þá getur verið nauðsynlegt að vera með hækkunarpúða ef dekkin eru stærri en 52 mm.
- Stífleiki öxulsins Það er mjög misjafnt hvernig fólk vill hafa öxlana sína, þ.e. allt frá því að vera mjúkt stilltir eða mjög stífir. Ef öxlarnir eru mjúkt stilltir (mjúkar fóðringar og/eða róin á öxlinum ekki mikið hert) þá þýðir það að það þarf minna til að þeir beygji mikið og brettaplatan rekist í dekk. Því getur verið klókt að vera með hækkunarpúða.
Auk hækkunarpúða eru til höggpúðar (e. shock pads). Þeir eru oftast mýkri (úr gúmmíi en ekki plasti) og mjög þunnir (oftast 1/16″). Tilgangur þeirra er bara að minnka álagið á milli brettaplötunnar og öxulsins en ekki til að hækka brettið.
Sjá allt um öxla hér.

Vax (e. wax)
Stór hluti af hjólabrettamenningunni í dag er að slæda og grænda á öllu milli himins og jarðar – handriðum, steyptum köntum, nefndu það.
Til að geta slædað eða grændað á hlutum þurfa þeir að vera frekar sléttir til að brettið renni. Þar að auki er mjög algengt að bera vax þar á hlutunum til að það verði ennþá léttara (minna viðnám = auðveldari og lengri slæd/grænd).

Speiserar (e. spacers)
Speiserar eru litlir hólkar sem eru settir inn í dekkinn á milli leganna tveggja sem fara í hvert dekk. Tilgangurinn er að gefa innri hring legunnar meiri stuðning þegar hliðarálag og högg og annað dynja á legunni. Það minnkar líkur á að legurnar skemmist og eykur líftíma þeirra.
Það er ekki nauðsynlegt að nota speisera, en það ættu samt allir að gera það því það hefur ekkert neikvætt í för með sér heldur bara jákvætt. Sjá nánar um speisera og skinnur á síðunni um öxla hér.

Sandpappírshreinsari (e. griptape cleaner)
Sandpappírshreinsari er í raun bara stór klumpur af gúmmíi. Tilgangurinn með honum er að hreinsa sandpappír og er það gert með því að nudda klumpnum við sandpappírinn.
Það er okkar reynsla að svona hreinsir getur virkað eitthvað á mjög skítugan sandpappír, þá aðallega ef hann er hreinlega drullugur, en á sandpappír sem er bara smá skítugur eftir venjulega notkun þá gerir þetta ekki mikið.