fbpx

Hjólabrettaplötur

Fyrstu hjólabrettin voru í alvörunni ekkert meira en bara spýtubútur sem búið var að festa dekk á. Dekkin voru fyrst búin til úr stáli og örstutt á milli þeirra, þannig að það er hægt að ímynda sér hversu erfitt var að halda jafnvægi og hversu óþægilegt það var að renna sér á þeim.

Þetta var um miðja síðustu öld. Seinna meir komu leirdekk til sögunnar en það var ekki fyrr en um 1975 sem plastdekkin sem við þekkjum í dag urðu til og breyttu hjólabrettaheiminum algjörlega. Í kjölfarið hófst mikil þróun á hjólabrettinu og öllum hlutum þess sem skilaði okkur hjólabrettinu eins og við þekkjum það í dag.

Framleiðsla

Þverskurður af hjólabrettaplötu

Í dag eru nánast allar alvöru plötur búnar til á svipaðan hátt. Þær eru samsettar úr 7 lögum af við sem heitir hlynur (e. maple) sem eru límd og pressuð saman. Í því ferli pressast þau jafnframt í það lag sem platan á að vera í, þ.e. sveigjuna sem er á plötunni bæði til endanna og hliðanna (e. concave).

Eftir að búið er að pressa lögin saman þá er lögun brettisins skorin út og brettið svo pússað á öllum hliðum svo það fái þessa rúnuðu brún sem við þekkjum.

Ef það er litur á brettaplötunni, annað hvort að ofan eða neðan eða einhversstaðar á milli þá er viðurinn litaður áður en brettin eru pressuð. Grafíkin sem oft er á botni plötunnar er hins vegar sett eftir að platan er búin í pressun, skurði og pússun.

Stundum eru bretti búin til úr öðrum efnum, til dæmis úr birki í stað hlyns og á það sérstaklega við um plötur fyrir byrjendur. Þær eru í góðu lagi og nota m.a. viðurkenndir framleiðandur slíkar plötur eins og Powell-Peralta til dæmis.

Nýjasta tækni og vísindi

Það nýjasta hvað varðar brettaplötur er að sumir framleiðendur setja núna 1-2 lög af „Carbon fibre“ með venjulegum hlyn lögum til að styrkja brettin, gera þau þynnri og stökkari (þannig að þau fái meira „popp“). Þá eru oftast 5-6 lög af hlyn plús 1-2 lög af „Carbon fibre“.

Lögun

Formið sem við þekkjum á brettaplötum í dag þar sem plöturnar eru nánast eins að framan og aftan og hliðarnar beinar hefur alls ekki alltaf verið þannig. Það náði fyrst vinsældum á níunda áratugnum þegar hjólabretti voru að færast meira yfir í götuskeit (e. street skating) í stað þess að vera aðallega á pöllum og þess háttar. Þessi lögun býður nefnilega upp á meiri möguleika við að gera allskonar trikk á brettinu og nota bæði fram- og afturendann og hliðarnar til þess.

Þessi lögun heitir á ensku „popsicle“ og dregur nafn sitt frá viðarstöngunum sem eru notaðar í íspinna – en ef þú pælir í því þá eru hjólabretti mjög svipuð í laginu og svoleiðis stangir!

Það er hins vegar engin regla um hvernig hjólabretti á að vera í laginu. Þótt popsicle brettin séu lang algengust þá eru ennþá framleiddar brettaplötur sem eru allaveganna í laginu. Helst má nefna:

  • Krúserbretti (e. cruiser) sem eru oft í laginu eins og „old school“ brettin frá áttunda áratugnum
  • Skálarbretti (e. pool) sem eru aðeins breiðari en popsicle bretti og oft með ólíka fram- og afturenda.
  • Langbretti (e. longboards). eru oftast skrítin í laginu og flöt. Þau eru bara hugsuð sem farartæki en ekki til að gera nein trikk á. Oftast eru þau með mjög stórum mjúkum dekkjum svo þau rúlli sem best og lengst.
Mismunandi form af brettaplötum

Gott að vita

Þó „popsicle“ brettaplötur líti út fyrir að vera alveg eins í báða enda þá er það ekki þannig. Plöturnar hafa fram- og afturenda (e. nose and tail) og þeir eru ekki jafn stórir og stundum aðeins mismunandi í laginu. Framendinn er alltaf örlítið stærri, bæði lengri og hærri, en tilgangurinn með því er að framendinn „grípi“ betur í fótinn þegar verið er að framkvæma allskonar trikk og svoleiðis.

Þess vegna skiptir máli hvernig brettið snýr þegar þú notar það og það er ástæðan fyrir að margir nota mislitar skrúfur eða munstur á sandpappírnum til að sjá alltaf hvor endinn er hvað.

Sumir snúa brettaplötunum sínum viljandi öfugt þegar þeir setja brettin sín saman því þeim finnst betra að hafa afturendann stærri.

Auk þess eru fleiri og fleiri farnir að nota svokölluð „symmetrical“ bretti en þá eru fram- og afturendarnir nákvæmlega eins í laginu. Þá þurfa þeir aldrei að spá í hvor endinn er hvað – en í slíkum tilfellum þarf þó að passa upp á að öxlarnir á brettinu séu eins stilltir (jafn stífir).

Stærð

Hjólabretti breidd, lengd og hjólhaf

Stærðir á brettaplötum eru nánast alltaf gefnar upp í tommum (táknað með “ merkinu). Það eru oftast þrjár stærðir sem eru tilgreindar:

  • Breidd (e. width) er sú stærð sem langoftast er talað um. Hún er nánast alltaf gefin upp í vöruheitum og vörulýsingum enda er þetta stærðin sem hefur mest vægi við val á brettum. Algengast er að breiddin sé á bilinu 7,25″ – 9,0″ en þó er allur gangur á því. Krúserbretti eru t.d. oft í kringum 10″ – 11″.
  • Lengd (e. length) skiptir einnig máli en oftast helst hún í hendur við breiddina. Því mjórri/breiðari sem platan er því styttri/lengri er hún líka. Það á því fyrst og fremst að fara eftir breiddinni en það sakar ekki að hafa lengdina í huga líka því það er misjafnt eftir framleiðendum hversu langar plöturnar eru miðað við breidd. Því styttri bretti því auðveldara að gera trikk og þess háttar á þeim. Það er algengast að bretti séu á bilinu 31″ – 33″ löng.
  • Hjólhaf (e. wheelbase) er ekki lengdin á milli dekkjanna heldur er það lengdin sem er á milli innri skrúfugatanna á plötunni. Eins og lengd þá helst hjólhaf oftast í hendur við breidd plötunnar en þó getur verið misjafnt eftir framleiðendum. Sumir framleiðendur fókusera til dæmis á skeitara sem eru meira að gera tæknilega hluti og trikk og þá er gott að hafa hjólhafið aðeins minna. Algengast er að hjólhafið sé á milli 14″ – 14,5″ langt en getur alveg verið 15″ eða lengra t.d. á krúserbrettum. Í grunninn má segja að því meira hjólhaf því meiri stöðugleiki en minna hjólhaf gefur meiri stjórn á brettinu á minni hraða (það beygir hraðar).

Hvaða brettastærð hentar?

Í grunninn þá er engin algild regla sem segir til um það hvaða brettastærð á að nota. Eins og með svo margt annað varðandi hjólabretti þá er þetta einfaldlega smekksatriði og þeir sem hafa verið á bretti í smá tíma finna oftast út úr því hvaða brettastærð þeir vilja.

Það er þó þannig að því minna sem brettið er miðað við notandann því auðveldara á hann með að ráða við og stjórna brettinu. Tæknilegir skeitarar vilja til dæmis hafa brettið í minni kantinum. Þeir sem renna sér meira, eru á pöllum og skálum og þess háttar vilja hafa brettið í stærri kantinum fyrir meiri stöðugleika.

Fyrir byrjanda er alltaf betra að velja frekar bretti í minni kantinum svo hann ráði betur við það á meðan hann er að læra. Svo má alltaf skipta í stærra bretti seinna meir.

Það er svo tvennt annað sem spilar inn í, það er líkamsstærð miðað við aldur og skóstærð. Ef notandinn er stór eða lítill miðað við sinn aldurshóp þá getur verið sniðugt að taka aðeins stærra eða minna bretti.

Í öllu falli þá á EKKI að kaupa hjólabretti í dótabúðum eða stórmörkuðum. Slík bretti geta verið fjarskafalleg með flottri grafík en gæðin eru án undantekninga slæm og alls ekki á pari við alvöru hjólabretti.

Neðangreindar leiðbeiningar eru aðeins til grófrar viðmiðunar og byggt á okkar reynslu og skoðunum. Leiðbeiningarnar eiga aðallega við um byrjendur.

Ef þú ert ekki viss hvað er best að velja, eða ef stærðin sem þú vilt er búin hjá okkur, þá ekki hika við að hafa samband með pósti á regular@regular.is eða með skilaboðum á Facebook eða Instagram.

Miðað við skóstærð upp að 29

Fræðilega séð væri best að reyna að velja hérna mjög lítil bretti eða á bilinu 6,5″ – 7,0″ breið fyrir þessa litlu skeitera.

Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að fá svona lítil bretti, oftast er 7,25″ það minnsta sem er í boði og jafnvel bara 7,5″. Þá er bara um að gera að taka það minnsta sem til er.

Miðað við skóstærð 30 – 34

Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,25″ – 7,75″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.

Miðað við skóstærð 35 – 39

Hér mælum við með að velja bretti á bilinu 7,5″ – 8,00″ breið eftir því hvar barnið er á aldursbilinu og líkams/skóstærð miðað við aldur.

Miðað við skóstærð 40 og yfir

Hér er þetta svolítið opið og í raun hægt að velja öll bretti sem eru 7,5″ og breiðari, bara eftir smekk.

Oftast eru það þó stærðirnar 7,75″ eða 8,0″ sem henta best og jafnvel 8,25″ fyrir þá stærri.

Fyrir fullorðna er oftast best að byrja á stærðinni 8,0″ en fyrir hávaxna getur verið gott að byrja á 8,25″ og jafnvel 8,5″.

Hjólabrettaplötur í Brettasjoppunni