fbpx

Hjólabrettalegur

Hjólabrettalegur eru það sem allt snýst um… bókstaflega því það eru legurnar sem gera dekkjunum kleyft að snúast um öxlana og rúlla brettinu áfram.

Hjólabrettalegur eru svokallaðar kúlulegur en kúlulegur eru ekki bara notaðar í hjólabretti. Þær eru almennt notaðar í allskonar hluti, allt frá fidget-spinnerum, sippuböndum, hjólaskautum og í allskonar vélar og tæki þar sem hlutir þurfa að snúast.

Samsetning hjólabrettalega

Hjólabrettalegur eru settar saman úr nokkrum mismunandi hlutum.

  • Ytri hringur (stór) og innri hringur (lítill). Innri hringurinn er innan í þeim stóra. Brautir fyrir kúlurnar sjálfar eru fræstar í báða hringina, innan á stóra hringinn og utan á litla hringinn.
  • Kúlur eru svo settar á milli ytri og innri hringsins og festast þær á milli hringjanna í fræstu brautunum. Lang oftast eru notaðar 7 kúlur en það er hægt að nota færri eða fleiri.
  • Til að halda réttu bili á milli kúlanna eru þær settar í kúlubúr (e. ball cage), en það er hringur eða grind úr plasti sem heldur kúlunum á réttum stað og tryggir að það sé alltaf jafnt bil á milli þeirra.
  • Olía eða smurefni er sett innan í leguna til að auðvelda kúlunum að snúast inni í henni með því að minnka núning og almennt passa að hún endist sem lengst.
  • Gúmmíhlíf er fest innan í leguna til að hindra það að ryk og skítur komist inn í hana. Hægt er að taka þessar hlífar af til að þrífa legurnar. Á ódýrum legum (t.d. þeim sem fylgja í mörgum samsettum brettum) eru hlífarnar úr járni og ekki hægt að taka þær úr.

Stærðin

Það þarf í raun ekki að hafa áhyggjur af þessu. Þegar hjólabrettalegur eru keyptar þá er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort þær eru of litlar eða stórar. Ef legur eru seldar sem hjólabrettalegur þá eru þær alltaf jafn stórar og passa í öll hjólabrettadekk.

Hvernig þær snúa

Oftast eru legur með innri og ytri hlið og því skiptir máli hvernig þær snúa í dekkjunum, en sumar legur geta þó snúið á báða vegu. Ef það er bara ein gúmmíhlíf á legunni þá á hún að snúa út, en best er að lesa bara leiðbeiningarnar sem fylgja legunum ef þær eru nýjar.

Gúmmíhlífar eða ekki

Sumir taka gúmmíhlífarnar úr legunum og sumar legur eru seldar þannig að það eru engar gúmmíhlífar (það er þó undantekning). Þetta er aðallega upp á stílinn að gera en það er lang skynsamlegast að hafa hlífarnar í svo það komist ekki skítur inn í þær.

Gæði hjólabrettalega

Eins og með svo margt annað þá getur verið samhengi á milli verðs og gæða þegar kemur að hjólabrettalegum. Allar legur snúast og líta ágætlega út þegar þær eru nýjar en gæðin felast fyrst og fremst í því hversu vel og lengi þær endast án þess að byrja að skrölta og að lokum skemmast.

Með því að kaupa legur frá þekktu vörumerki og söluaðila sem þú treystir þá getur þú verið nokkuð viss um að legurnar eru í lagi og standast gæðakröfur. Í einfaldaðri mynd má segja að góðar hjólabrettalegur falli í þrjá megin flokka eftir gæðum og verði.

  • Hefðbundnar legur Framleiddar úr góðum efnum og standast allar helstu kröfur sem eru gerðar um endingu og gæði. Lang flestar legur falla í þennan flokk og lang flestir hjólabrettaiðkendur nota þær.
  • Swiss legur Upphaflega framleiddar af ákveðnum framleiðendum í Sviss með betri efnum og af meiri nákvæmni. Síðan hafa margir framleiðendur byrjað að nota þessa merkingu fyrir betri legurnar sínar sem uppfylla þessar kröfur þó þær séu ekki endilega framleiddar í Sviss. Eru nokkuð dýrari en hefðbundnar legur.
  • Ceramic legur Legur þar sem kúlurnar eru framleiddar úr Ceramic efni og eru því bæði sterkari, endingarbetri og hraðari. Eru miklu, miklu dýrari en hefðbundnar legur en á móti kemur að þær endast nánast fyrir lífstíð.

ABEC og aðrar merkingar

ABEC er skammstöfun fyrir „Annular Bearing Engineers Committee“ og er mælikvarði sem veltur á því með hversu nákvæmum hætti kúlurnar í legunum eru framleiddar – þ.e.a.s. því meiri nákvæmni því minni líkur á göllum og minni mótstaða þegar kúlurnar rúlla. Meiri nákvæmni, meiri hraði.

ABEC kvarðinn sem er notaður á hjólabrettalegur notar tölurnar 3, 5, 7 og 9. Því hærri sem talan er því betri eiga legurnar að vera og því meiri hraði.

ABEC er hins vegar mjög ófullkominn kvarði fyrir hjólabrettalegur þar sem hraði í ABEC mælingum er miklu meiri en hjólabretti ná nokkurn tímann. Þess vegna eru margir af betri framleiðendunum alveg hættir að nota ABEC og farnir að nota sínar eigin gæðamerkingar og mælikvarða fyrir legurnar sínar. Dæmi um þetta er Bones sem notar „skate rated“ og Bronson sem notar G2 og G3.

Bottom line – ef þú kaupir legur hjá söluaðila sem þú treystir frá þekktum framleiðanda þá ertu í góðum málum!

Skinnur og speisarar

Á flestum nýjum öxlum fylgja litlar skinnur (e. speed rings) sem eru settar sitt hvoru megin við dekkin/legurnar á öxlunum. Það á alltaf að nota þessar skinnur.

Svo er það spurningin: Á að nota speisera (e. spacers) eða ekki? Speiserar eru litlir málm- eða plasthólkar sem fara inn í dekkið á milli leganna og styðja við innri hring leganna þegar legurnar lenda í miklu álagi. Stundum fylgja speiserar með nýjum legum en einnig er hægt að kaupa þá sérstaklega.

Sumir segja að þetta þyngi brettið eða geri það að verkum að það heyrist meira í legunum. Það er bara rugl! Þó þetta sé ekki 100% nauðsynlegt til að vera á hjólabretti þá eru speisarar alltaf að fara að lengja lífið í legunum og því eiginlega no-brainer að nota þá – sérstaklega ef þeir fylgja með nýjum legum þegar þú skiptir.

Legur í Brettasjoppunni