fbpx

Öryggisbúnaður

Einhverra hluta vegna hefur sú hefð skapast að vera ekki með öryggisbúnað á hjólabrettum. Enginn hjálmur, engar hlífar, ekki neitt. Það segir sig því eiginlega sjálft að ef eitthvað fer úrskeðis þá getur það orðið ansi vont og jafnvel hættulegt.

Sumum finnst ekki svalt að vera með öryggisbúnað, sumum finnst óþægilegt að vera með öryggisbúnað. Sumir segja líka að það sé óþægilegt en finnst það í rauninni bara ekki svalt!

Skoðaðu Hall of Meat myndböndin hjá Thrasher Magazine til að sjá alla bestu skellina á einum stað. Það gæti fengið þig til að endurhugsa málið.

Að þessu sögðu…

Það má segja að eftir því sem þú verður betri á hjólabretti og stundar það meira þá verður þörfin fyrir að nota öryggisbúnað minni. Þótt trikkin séu orðin flóknari og hraðinn meiri og svoleiðis þá skilar reynslan sér í því að fólk er betur í stakk búið til að ráða við aðstæðurnar sem koma upp.

Trikk sem hefði hent þér af brettinu og brotið olnbogann á þér sem byrjandi verður ekki sama vandamál lengur og þú ræður einfaldlega betur við erfiðar og misheppnaðar lendingar. Allt jafnvægi í líkamanum verður miklu betra og þú lærir að detta.

Vont en það venst!

Þetta er einmitt lykilatriði í þessu, fólk lærir að detta! Þegar fólk verður betra og betra á hjólabrettum þá er það búið að detta svo oft að það er orðið vant því og búið að læra miklu meira inn á hvernig á að beita líkamanum í falli. Það skiptir nefnilega miklu máli hvernig þú dettur. Svo einfalt er það.

By the way, þegar þú dettur á hjólabretti þá er nauðsynlegt að reyna að „vinna með“ fallinu, leyfa því að gerast og þannig draga sem mest úr áhrifum þess. Um leið og þú stífnar upp þá verður líkaminn verr í stakk búinn til þess að taka á móti högginu og líkurnar á meiðslum verða ennþá meiri. Um að gera að hafa þetta í huga frekar en að streitast á móti, því þú átt eftir að detta… oft!

Niðurstaðan?

Einfalt. Ef þú ert byrjandi þá áttu að vera með öryggisbúnað, að lágmarki hjálm og helst fleiri hlífar. Punktur!

Eftir því sem þú verður betri og betri getur þú metið það hvort þú treystir þér til að fækka hlífunum. Það er samt eina vitið að halda í hjálminn sem lengst því ef þú dettur illa á hausinn þá er bara ekki aftur snúið, það er hægt að gera við flesta aðra líkamshluta en hausinn. Hafðu samt í huga að slæm meiðsli geta haldið þér frá hjólabrettaiðkun í laaangan tíma (sem er glatað!) en hægt er að koma í veg fyrir það með hlífum.

Helsti öryggisbúnaður fyrir hjólabretti

Hjálmur

Skylda, segir sig sjálft. Verndar það sem er mikilvægast og viðkvæmast fyrir höggum. Það er alltaf betra að kaupa sér almennilega hjálma og passa þarf sérstaklega ef hjálmar eru keyptir frá Bandaríkjunum að þeir séu með svokallaða CE vottun.

Olnbogahlífar

Margir olnbogar hafa brotnað við hjólabrettaiðkun. Það er nefnilega magnað hvað maður ber olnbogann fyrir sig þegar maður dettur og þá sérstaklega byrjendur. Olnbogahlífar eru púðar með teygjum sem þú setur utan um olnbogana og með harðri skel að utan.

Úlnliðshlífar

Þessar eru líka mikilvægar eins og olnbogahlífin. Það þarf ótrúlega lítið til að úlnliðurinn fari illa þegar þú dettur og berð hendurnar fyrir þig. Úlnliðurinn tekur þá höggið fyrir allan líkamann. Úlnliðshlífar eru einskonar spelkur sem ná yfir hluta af höndinni, úlnliðinn og upp á framhandlegginn.

Hnéhlífar

Þungu höggin lenda oftast á efri líkamanum (olnbogum og úlnliðum) og þau svæði eru líka viðkvæmari en hnén. En hnéhlíf getur samt verið mikilvæg og algengt að hnén taki högg áður en maður lendir svo á úlnlið eða olnboga. Hnéhlíf er eins og stór olnbogahlíf, púðar með teygjum sem þú setur utan um hnén með harðri skel að utan.

Annað

Það er til fullt af öðrum búnaði en er talið upp hér. En það er þá oftast búnaður sem er ætlaður til að hjálpa þeim sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir á ákveðnum svæðum, t.d. eftir meiðsli eða eitthvað slíkt. Dæmi um þetta eru allskonar teygjusokkar, spelkur og þess háttar sem er ætlað að styðja við ákveðna líkamsparta og hindra frekari meiðsli. Þó geta slíkar hlífar gagnast þeim sem vilja vera með smá vörn án þess að vera með stórar hlífar, t.d. teygjusokkar fyrir hné með smá púða.

Öryggisbúnaður í Brettasjoppunni