fbpx

Regular.is í loftið

Vefsíðan Regular.is hefur opnað „dyr sínar“.

Regular er hugarfóstur og verkefni Óðins (a.k.a. O.D.) sem er mikill hjólabrettaáhugamaður en einnig hafa ýmsir góðir aðilar komið að verkefninu og aðstoðað við þróun þess með áliti, athugasemdum og almennri velvild. Er þeim þakkað kærlega fyrir það!

Tilgangurinn með Regular er að stuðla að framgangi hjólabrettamenningar á Íslandi með öllum mögulegum hætti. Okkur fannst til dæmis sárvanta efni um hjólabretti á íslensku og stað sem hjólabrettaiðkendur geta farið á til að finna viðeigandi upplýsingar.

Við hvetjum alla sem vilja koma einhverju á framfæri, með sérstaka áherslu á íslensku brettasenuna að sjálfsögðu, til að vera í bandi við okkur. Myndbönd, viðburðir, ljósmyndir, hvað sem er!

Á síðunni verður boðið upp á margskonar fræðslu og upplýsingar sem vonandi gagnast öllum skeiturum en ekki síst þeim sem eru byrjendur og vilja kynna sér hlutina og læra. Á meðal þess efnis sem verður á síðunni:

  • Greinar, fréttir og tilkynningar Allskonar fréttir, stuttar greinar, ábendingar um góð skeitmyndbönd, tilkynningar um nýjar vörur og margt fleira.
  • Brettafræðslan Upplýsingar og fræðsla um alla mismunandi hluti hjólabrettisins eins og plötur, öxla, dekk og svo framvegis. Við það mun svo bætast „Gerðu sjálf/ur“ leiðbeiningar um allt sem snýr að því að setja saman bretti og skipta um hluti og þess háttar.
  • Brettakennslan Ekki ítarleg kennsla, heldur frekar benda á alla þá góðu aðila sem bjóða upp á námskeið og hjólabrettaskóla því sem betur fer eru margir aðilar að vinna frábært starf hvað það varðar. Með tímanum verður þó einnig til staðar létt yfirlit yfir grunnatriði hjólabrettaiðkunar.
  • Brettastaðir Upptalning á brettastöðum, bæði brettagörðum innanhúss (sem því miður eru of fáir!) og helstu tengiliðaupplýsingar. Með tímanum líka upptalning á öllum helstu útistöðunum um allt land, þ.e. staði þar sem er til staðar sérstök aðstaða fyrir hjólabretti eins og pallar og þess háttar – en ekki götu „skate spots“, fólk þarf enn að hafa fyrir því að finna út úr því sjálft 😉
  • Brettasjoppan Netverslun sem býður upp á alla helstu hjólabrettahlutina, fatnað og allskonar kúl dót í tengslum við hjólabrettamenninguna og lífsstílinn á geggjuðum verðum.

Vonandi mælist þetta framtak vel fyrir hjá öllum skeiturum – stórum, smáum, ungum og gömlum. Tökum þetta upp á næsta stig!