Hjólabretti á Ólympíuleikunum
Hjólabretti eru ein af fimm nýjum greinum sem verða hluti af Ólympíuleikunum í Tokyo í ár.
Keppt verður í karla- og kvennaflokkum í tveimur mismunandi greinum sem kallast „street“ og „park“ og það verða 20 keppendur í hverjum flokki. Það verða því samtals 80 keppendur sem taka þátt og koma þeir frá 26 mismunandi löndum.
Mjög breytt aldursbil keppenda vekur athygli, þar sem yngstu keppendurnir eru 13 ára (Sky Brown frá Bretlandi og Kokona Hiraki frá Japan) og sá elsti 46 ára (Rune Glifberg frá Danmörku).
Street keppnin verður haldin 25. og 26. júlí og park keppnin verður haldin 4. og 5. ágúst. Það er gaman að segja frá því að RÚV mun sýna frá keppninni á eftirfarandi tímum.
- 25. júlí kl. 3:20 (endursýnt kl. 13:20)
- 26. júlí kl. 3:40 (endursýnt kl. 13:05)
- 4. ágúst kl. 3:25 (endursýnt kl. 14:35)
- 5. ágúst kl. 6:00 (endursýnt kl. 16:15)
Hvernig komust keppendur á leikana?
Til að komast inn á ólympíuleikana hafa skeitarar þurft að taka þátt í viðurkenndum keppnum sem gefa stig til þátttöku á leikunum. Það var einungis núna í júní sem endanlegar niðurstöður lágu fyrir eftir að heimsmeistaramótið í street var haldið í Róm og síðustu keppendurnir tryggðu sig þar inn á ólympíuleikana.
Covid setti stórt strik í reikninginn varðandi þennan undirbúning því fella þurfti niður margar keppnir sem gáfu stig til þátttöku, sem á endanum hafði m.a. þau áhrif að sumir keppendur sem búist var við að tækju þátt í leikunum munu ekki gera það.
Keppnisstaðurinn
Keppnisstaðurinn er Ariaka Urban Sports Park sem var byggður upp sérstaklega fyrir keppnir á hjólabrettum á einu svæði og BMX hjólum á öðru svæði.
Street brautin á að endurspegla svipaðar aðstæður og finnast á götum úti, með brekkum, handriðum, tröppum og öðrum hlutum sem skeitarar eru vanir að nota til að gera trikk á. Brautin er sett upp á þann einstaka hátt að hún speglast nákvæmlega á báðum hliðum, til að allir hafi sömu möguleika á að nýta brautina óháð því hvort þeir eru með regular eða goofy stöður á brettinu (renna sér með vinstri fótinn að framan eða hægri fótinn að framan).
Park brautin byggir á þeirri hefð sem skapaðist fyrir áratugum síðan í Kaliforníu þar sem skeitarar notuðu tómar sundlaugar til að renna sér í og gera allskonar trikk, stökk og fleira. Þessu er svo blandað við aðstöður sem finnast í hefðbundnum brettagörðum og stórum römpum þannig að úr verður flott braut með mörgum möguleikum fyrir keppendur. Park keppendur fara töluvert hraðar og hærra í sínum trikkum en street keppendurnir.
Fyrirkomulag keppninnar
Í bæði street og park verða haldnar undankeppnir og svo úrslit. Í hverjum flokki munu keppendurnir 20 skiptast í fjóra riðla í undankeppninni með fimm keppendum í hverjum riðli. Tveir keppendur úr hverjum riðli munu svo komast áfram úr undankeppninni og því verða átta keppendur sem keppa í úrslitum í hverjum flokki (street karla, street kvenna, park karla og park kvenna).
Það eru tímamörk fyrir hvern skeitara en að öðru leyti mega þeir ráða hvað þeir gera í brautinni þar sem markmiðið er að búa til góðar ferðir og trikk sem gefa þeim sem flest stig hverju sinni. Stigagjöfin byggist m.a. á erfiðleika, hæð, hraða, frumleika, stíl, framkvæmd og samsetningu.
Fyrirkomulag á keppninni og stigagjöf verður örlítið mismunandi á milli street og park.
STREET
- Keppendur fá tvær 45 sekúndna ferðir sem þeir nota til að setja saman heildstæða blöndu af trikkum og nýta brautina sem best.
- Keppendur fá að auki 5 stakar tilraunir til að ná að gera eins erfið trikk og þeir mögulega geta.
- Fimm dómarar dæma bæði ferðirnar og stöku trikkin á skalanum 0-10. Hæsta og lægsta stigagjöf dómara hverju sinni eru fjarlægðar og hinar þrjár sem eftir standa mynda meðaltalseinkunn með einum aukastaf fyrir hverja ferð/trikk.
- Hver keppandi hefur því sjö tækifæri til að ná sem hæstri stigagjöf, eða tvær ferðir og fimm trikk.
- Af þessum sjö stigagjöfum munu svo aðeins fjórar hæstu gilda, og skiptir ekki máli hvort það er fyrir ferð eða trikk. Þannig getur t.d. keppandi sem klúðrar báðum ferðunum sínum samt náð að vinna með því að ná fjórum góðum trikkum.
PARK
- Keppendur fá þrjár 45 sekúndna ferðir sem þeir nota til að setja saman heildstæða blöndu af trikkum og nýta brautina sem best.
- Fimm dómarar gefa stig á skalanum 0-100 fyrir hverja ferð. Hæsta og lægsta stigagjöf dómara hverju sinni eru fjarlægðar og hinar þrjár sem eftir standa mynda meðaltalseinkunn með tveimur aukastöfum.
- Besta ferðin af þessum þremur hjá hverjum skeitara gildir.