fbpx
Brettagarður utanhúss

Er brettaaðstaða nálægt þér?

Eitt af því sem verður hluti af Regular.is er útlistun á þeim hjólabrettasvæðum sem eru til staðar á Íslandi, bæði innan- og utanhúss. Er þá átt við „formlega“ brettaaðstöðu, þ.e. þar sem búið er að koma fyrir pöllum eða öðrum hlutum á ákveðnum svæðum sem eru sérstaklega ætluð til hjólabrettaiðkunar.

Að telja upp alla innistaðina er því miður lítið mál, því þeir eru svo skammarlega fáir, og gerum við það HÉR. Að telja upp alla útistaðina er aðeins meira mál og munum við leita til bæjarfélaga um allt land til að fá upplýsingar og myndir til að setja inn á síðuna okkar.

Við viljum hins vegar líka fá ábendingar frá skeiturunum sjálfum um staði sem eru í þeirra nærumhverfi, bæði á höfuðborgarsvæðinu en ekki síður af landsbyggðinni. Gott væri þá að fá upplýsingar um staðsetningu og mögulega myndir ef hægt er.

Svona listi mun þjóna tvennum tilgangi:

  1. Við öll sem stundum hjólabretti höfum þá í höndunum lista yfir öll helstu hjólabrettasvæðin, sama hvort við erum byrjendur eða ekki. Það mun gagnast öllum og einhverjir jafnvel kynnast nýjum stöðum. Svo ef maður er á ferðalagi og með brettið í skottinu þá er auðvitað hægt að nýta þetta til að prufa staði annarsstaðar á landinu líka.
  2. Þetta mun svo nýtast í áframhaldandi baráttu við borgina og öll bæjarfélög um að fá hjólabrettagreinina loksins upp á þann stall sem hún á heima í dag. Margir af þessum útistöðum eru auðvitað fáránlega hannaðir í upphafi og auk þess í algjörri niðurníðslu og þetta mun hjálpa okkur við að geta sýnt fram á það með heildstæðri mynd af stöðunni.

Við erum sem sagt ekki bara að biðja um fallegar og flottar myndir af brettasvæðum og pöllum, heldur öllu því slæma líka svo hægt sé að safna því saman og nota í vinnunni við að kalla eftir úrbótum.

Vonandi næst sem best samstaða um þetta því það er svo sannarlega úrbóta þörf! Allar ábendingar og skilaboð má senda á regular@regular.is eða í gegnum Facebook eða Instagram.